Starf yfirþjálfara Íþróttaskóla HSV laust til umsóknar

 

Stjórn Héraðssambands Vestfirðinga auglýsir 100% starf yfirþjálfara Íþróttaskóla HSV laust til umsóknar. HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðarvíkurhrepp og hefur 15 virk aðildarfélög innan sinna vébanda. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina.

Íþróttaskóli HSV var settur á fót haustið 2011 og er samstarfsverkefni HSV, aðildarfélaga HSV og Ísafjarðarbæjar. Skólinn er fyrir öll börn 1.-4. bekkjar í grunnskólum Ísafjarðarbæjar.  Lögð er áhersla á grunnþjálfun og að börnin fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Ísafjarðarbær styður verkefnið og er skólinn ein af grunnstoðum í  samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar og HSV sem fyrst var undirritaður veturinn 2010-2011.

 

Markmið skólans eru að:
• hvetja og fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
• fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun séu jákvæð
• börn fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum
• auka gæði þjálfunar
• lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
• auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu

Yfirþjálfari Íþróttaskóla HSV ber ábyrgð á daglegum rekstri hans ásamt samskiptum við Ísafjarðarbæ, aðildarfélög, foreldra og börn í skólanum.

 

Helstu verkefni:
• Yfirumsjón með öllu daglegu starfi Íþróttaskóla HSV, skipulagi, þjálfaramálum og stundaskrárgerð

  • Umsjón með grunnþjálfun barna í 1.-4. bekkog þjálfun barna í 1.-2. bekk ásamt annarri þjálfun sem við á í samstarfi við aðildarfélög HSV
    • Skipulagning og eftirlit með framkvæmd þjálfunar íþróttagreina í skólanum
    • Umsjón með heimasíðu Íþróttaskólans og fréttum honum tengdar
    • Samskipti við aðildarfélög, þjálfara aðildarfélaga, dægradvöl, foreldra og forráðamenn barna í Íþróttaskólanum
    • Halda utan um skráningar og skráningakerfi skólans

 

Hæfnikröfur:

Leitað er að einstaklingi með reynslu af þjálfun barna. Íþróttakennaramenntun, þjálfaramenntun eða önnur menntun sem nýtist í starfi er kostur en ekki skilyrði. Yfirþjálfarinn þarf að vera fyrirmynd fyrir börn og fullorðna og koma vel fyrir. Jákvætt hugarfar, sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptafærni, sveigjanleiki og ríkur vilji til að vinna með börnum eru skilyrði. Áhugi á uppbyggingu íþróttastarfs í Ísafjarðarbæ er mikilvægur kostur.  

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Æskilegast að viðkomandi geti hafið störf 1.ágúst 2020 eða eftir nánara samkomulagi. Umsóknarfrestur er til og með 11.júní 2020.  Nánari upplýsingar um starfið gefur Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV í s. 697-7867, eða í gegnum tölvupóstfangið formadur@hsv.is.  Umsóknir skulu berast til Bjarka Stefánssonar framkvæmdastjóra HSV í netfangið hsv@hsv.is. Með umsókn skal fylgja ferilskrá.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Stjórn HSV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánar

Hjólreiðadeild Vestra bíður upp á hjólanámskeið fyrir börn sem eru að ljúka 4.-7. bekk í grunnskóla, fædd árin 2007-2010.
Boðið verður upp á 4 námskeið*
Námskeiðin verða á eftirfarandi dögum:
9.-12. júní          → Verð 12.000 kr. (4 dagar).
15.-19. júní        → Verð 12.000 kr. (4 dagar).
22.-26. júní        → Verð 15.000 kr (5 dagar).
29. júní - 3. júlí  → Verð 15.000 kr (5 dagar).
*Lágmarksþáttaka á námskeið er 8 börn, og hámark 20 m.v. tvo kennara.
Námskeiðin eru alla virka daga frá kl. 10-13 og er mæting við Grænagarð. Kennslan fer fram þar og á nærliggjandi slóðum.
Umsjón með námskeiðunum hafa Viðar Kristinsson og Anna María Daníelsdóttir.

Nánar
Frá leikjanámskeiðinu sumarið 2019
Frá leikjanámskeiðinu sumarið 2019

HSV býður upp á íþrótta- og leikjanámskeið fyrir þau börn sem eru að ljúka 1.-4. bekk í grunnskóla, fædd árin 2010-2013.

Námskeiðin eru alla virka daga frá kl. 9-12 og er mæting við Íþróttahúsið á Torfnesi. Krakkarnir geta fengið vistun frá kl. 8:30 án skipulagðrar dagskrár. Umsjón með námskeiðunum hafa Bjarney Gunnarsdóttir, Heiðar Birnir Þorleifsson og Árni Ívarsson. Leikjanámskeiðin verða með fjölbreyttu sniði, farið verður í leiki, fjöruferðir, hjólaferðir, fjallgöngur, sund, ýmsar íþróttagreinar prófaðar og margt fleira. Nesti verður borðað um miðjan morgun og koma allir með hollt og gott nesti að heiman. Hægt er að velja um að vera allar vikurnar eða velja úr eins og hentar. Mikilvægt er að skrá börnin á námskeiðin í gegnum skráningarsíðuna https://hsv.felog.is/

Rétt er að taka fram að öll börn eru velkomin á íþrótta- og leikjanámskeið HSV, búseta á starfssvæði HSV er ekki skilyrði. Nánari upplýsingar veitir Bjarney Gunnarsdóttir í síma 696-3984 eða í gegnum netfangið ithrottaskoli@hsv.is

Nánar

Samkvæmt nýjustu tilmælum yfirvalda mega æfingar hjá börnum og unglingum hefjast aftur án takmarka frá og með deginum í dag. 

Íþróttaskóli HSV hefst aftur samkvæmt stundatöflu í dag. 

Hægt er að fá upplýsingar með æfingar á síðum aðildarfélaga HSV

Æfingar fullorðinna eru en með eftirfarandi takmörkunum:

  • Æfingar og keppnir eru heimilar

–        án áhorfenda og snertingar, gæta að 2 metra fjarlægðarmörkum

–        Takmörkun á sameiginlegum búnaði, notkun búningsklefa, sturtuklefa o.þ.h. innan dyra er óheimil

–        Innandyra max 4 í a.m.k. 800m² rými

–        Utandyra max 7 í hóp á 2.000m² svæði

–        Sundæfingar max sjö í einu, mega nota búningsklefa

 

Bestu Kveðjur Bjarki Stefánsson

Nánar

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.


Hvað varðar íþróttastarf barna og ungmenna er eftirfarandi beint til íþróttahreyfingarinnar:


„...að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur."


Hvað varðar íþróttaiðkun fullorðinna þá er eftirfarandi beint til til íþróttahreyfingarinnar:


„...er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi."


Jafnframt hvetja ráðuneytin skipuleggjendur íþróttastarfs til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.
Eftirfarandi árétting barst frá sóttvarnalækni í dag í tilefni útgáfu leiðbeinandi viðmiða frá heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti:


„Sóttvarnalæknir vill árétta að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.
Sóttvarnalæknir vill beina því til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands að, líkt og gert hefur varðandi börn og ungmenni, að tekið verði hlé í æfingum og keppnum á vegum sambandsins og aðildarfélaga þeirra á meðan samkomubann varir.“

 

HSV og aðildarfélög þess munu virða þessi tilmæli og verður allt íþróttastarf á vegum HSV fellt niður á meðan samkomubann er í gildi.

Nánar