- 21.05.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Þröstur og Tryggvi hlutu gulllmerki ÍSÍ
Þröstur Jóhannesson og Ingi Þór Ágústsson
Tryggvi Sigtryggsson og Ingi Þór Ágústsson
Á ársþingi hsv sem haldið var á dögunum voru þeir Tryggvi Sigtryggsson Golfklúbbi Ísafjarðar og Þröstur Jóhannesson Skíðafélagi Ísfirðinga sæmdir gullmerki ÍSÍ. Ingi Þór Ágústsson var fulltrúi ÍSÍ á þinginu og að lokinni tölu heiðraði hann þá félaga.
Tryggvi Sigtryggsson hefur alla tíð verið viðloðandi íþróttahreyfinguna á Ísafirði, enda búinn að fá gullmerki HSV og einnig silfurmerki Golfsambands Ísland. Hann var formaður Golfklúbbs Ísafjarðar í tíu ár og vann ötullega að uppbyggingu golfskálans og vallarins í Tungudal. Tryggvi lét af formennsku GÍ árið 2016 en hefur unnið mjög óeigingjarnt starf við nýframkvæmdir og viðhald á golfvellinum, sérstaklega eftir að hann komst á eftirlaun.
Þröstur Jóhannesson hefur um langt árabil starfað fyrir skíðahreyfinguna á Ísafirði (og Íslandi reyndar líka), hefur setið í stjórn og nefndum fyrir Skíðafélag Ísfirðinga og áður Skíðaráð Ísafjarðar síðan um 1980. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir framgangi gönguskíðaíþróttarinnar á Ísafirði bæði sem keppnisgrein og ekki síður sem almenningsíþrótt. Ekki er hægt að fara yfir störf Þrastar fyrir íþróttahreyfinguna án þess að farið sé yfir hans framlag til vaxtar og viðgangs Fossavatnsgöngunnar. Hann og félagi hans, Guðmundur heitinn Ágústsson, stóðu vaktina við framkvæmd mótsins um langa hríð. Þeir tóku einnig fullan þátt í eflingu göngunnar og eiga stóran þátt í að Fossavatnsgangan er orðinn einn stærsti árlegi viðburður í íþróttalífi landsins. Þröstur stundaði íþróttina af kappi og á að baki marga Íslandsmeistaratitla í greininni. Hann keppti fyrir Íslands hönd á Olympíuleikunum í Lake Placid 1980. Hann stundar sína íþrótt enn af eljusemi auk þess að leggja fram óteljandi vinnustundir við að bæta aðstöðu til gönguskíðaiðkunar og efla starf Skíðafélagsins. Þröstur er góð fyrirmynd fyrir þá sem stunda íþróttir til keppni og ekki síður þá er stunda þær sér til ánægju. Þá er Þröstur ekki síður góð fyrirmynd fyrir þá er leggja að mörkum ómælda sjálfboðaliðsvinnu fyrir sína íþrótt og sitt félag.
HSV óskar Tryggva og Þresti til hamingju og þakkar þeim góð störf um leið og við vonumst til að njóta starfskrafta þeirra næstu áfram áratugina.
Nánar
- 20.05.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Ársþing HSV 2019
Héraðsþing HSV var haldið miðvikudaginn 15. maí síðastliðinn í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Á þingið voru mættir fulltrúar flestra aðildarfélaga HSV.
Fyrirferðamesta málið á þinginu var vinna við stefnur og áætlanir sambansins. Fyrir þingi lágu tillögur að Viðbragðsáætlun, Jafnréttisáætlun, Fræðslu- og forvarnarstefnu, Umhverfisstefnu og Félagsmálastefnu. Nokkrar umræður urðu í allsherjarnefnd þingsins og var niðurstaða nefndarinnar að vísa framlagðri tillögu að Jafnréttisáætlun HSV til stjórnar að nýju til frekari vinnslu. Þótti nefndinni að vel væri tekið á kynjajafnrétti en nánari útfærslu vantaði varðandi jafnrétti milli ólíkra þjóðfélagshópa, t.d. fólks af erlendum uppruna. Sömuleiðis var niðurstaða nefndarinnar að vísa framlagðri Fræðslu- og forvarnarstefnu HSV til stjórnar til frekari vinnslu með tiliti til samræmis á milli stefnuyfirlýsingar og markmiða, einkum með það í huga hvort einhver markmið ættu betur heima í framlagðri Viðbragðsáætlun. Samþykkt þessara tveggja stefnanna yrði svo endanlega afgreidd á formannafundi. Þessi tillaga allsherjarnefndar var samþykkt samhljóða af þingfulltrúum. Aðrar tillögur stjórnar meðal annars fjárhagsáætlun voru samþykktar samhljóða.
Á þinginu voru nokkrir gestir mættir meðal annara fulltrúar Ísafjarðarbæjar, UMFÍ og ÍSÍ og formenn nágrannahéraðssambandanna HHF og HSS. Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ ávarpaði þingið og sæmdi síðan hjónin Rósu Þorsteinsdóttur og Árna Aðalbjarnarson starfsmerki UMFÍ fyrir þeirra störf fyrir íþróttastarf í bænum. Einnig veitti hún Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur fyrrum formann HSV gullmerki UMFÍ fyrir hennar framlag til íþrótta- og félagsmála. Ingi Þór Ágústsson fyrrum formaður og framkvæmdastjóri HSV sem nýverið var endurkjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ flutti einnig ávarp og ræddi nokkuð um Ferðasjóð ÍSÍ og greiðslur úr honum til aðildarfélaga HSV. Í máli hans kom fram að stofnun Vestra hefur haft mjög jákvæð áhrif á úthlutun styrkja úr sjóðnum hingað á svæðið. Ingi Þór sæmdi síðan Tryggva Sigtryggsson og Þröst Jóhannesson gullmerki fyrir þeirra áratuga störf og áhuga á framgangi íþróttamála á Ísafirði.
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV veitti fjórum einstaklingum silfurmerki HSV; Guðrúnu Ásbjörgu Stefánsdóttur GÍ, Reyni Péturssyni GÍ, Heimi Hanssyni SFÍ og Jón Hálfdáni Péturssyni Vestra. Hún sæmdi einnig tvo einstaklinga gullmerki sambandsins, þeim Marinó Hákonarsyni og Finni Magnússyni GÍ.
Ásgerður Þorleifsdóttir var endurkjörinn formaður HSV. Nýr í stjórn var kosinn Heimir Hansson í stað Inga Björns Guðnasonar sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Ásamt þeim Ásgerði og Heimi sitja nú í stjórn HSV; Hildur Elísabet Pétursdóttir sem var endurkjörin í stjórn, Karl Ásgeirsson og Baldur Ingi Jónasson. Í vara stjórn voru endurkjörnar Elísa Stefánsdóttir og Karlotta Dúfa Markan og Margrét Arnardóttir sem kemur ný í varastjórn í stað Heimis Hanssonar.
Einnig var kosið í stjórn Afrekssjóð HSV. Hana skipa Guðný Stefanía Stefánsdóttir, Jakob Einar Jakobsson og Yngvi Gunnlaugsson. Til vara Gísli Jón Hjaltason og Salome Elin Ingólfsdóttir. Í stjórn styrktarsjóðs þjálfara HSV voru kjörin Guðný Stefanía Stefánsdóttir, Jóhann Króknes Torfason og Baldur Ingi Jónasson.
Um miðbik þings var gert matarhlé og var þá borin fram súpa ásamt kaffi og meðlæti, framreitt af fulltrúum Skíðafélags Ísfirðinga.
Þingi var slitið um kl. 21.30.
Nánar
Íþrótta- og leikjanámskeið HSV
Hér koma upplýsingar um Íþrótta- og leikjanámskeið HSV. Búið er að opna fyrir skráningu sem fer fram í gegnum heimasíðuna okkar www.hsv.is undir skráning iðkenda. Þið sem veljið 1 eða 2 vikur vinsamlegast skráið í athugasemd hvaða vikur þið viljið velja. Stutta vikan er alltaf skráð sér og hvetjum við fólk til að greiða með kreditkorti til að sleppa við tvo greiðsluseðla.
Nánar
- 14.05.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Ársþing HSV 2019 verður haldið miðvikudaginn 15. maí kl. 17
19. ársþing HSV verður haldið miðvikudaginn 15. maí kl. 17 í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Á þinginu verða lagðar fram nokkrar tillögur til umræðu og smaþykktar, einnig verða lagðar fyrir þingið nýjar stefnur og áætlanir sem unnar hafa verið í tengslum við umsókn HSV um að gerast fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Þar á meðal er viðbragðsáætlun og jafnréttisáætlun.
Nánar
- 25.04.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Yfir 70 iðkendur Skíðafélags Ísfirðinga keppa á Andrésar Andarleikunum
ánægðir Skíðafélagspúkar
Foreldrar léku við hvurn sinn fingur við grillið!
Nú á helginni fara fram Andrésar Andarleikarnir á Akureyri. Frá Skíðafélagi Ísfirðinga eru rúmlega 70 keppendur og taka þau þátt í keppni á gönguskíðum, bretti og í alpagreinum. Leikarnir voru settir á miðvikudag, og keppt er á fimmtudag, föstudag og laugardag. Mikill fjöldi aðstandenda fyrlgir keppendum og myndast skemmtileg stemmning bæði á gististað og upp í fjalli. Foreldrar buðu upp á grillpartý bæði á alpagreinasvæði og göngusvæði í sól og 12 gráðu hita á fyrsta sumardegi. Leikunum er slitið á laugardag og fara þá keppendur til síns heima reynslunni ríkari.
Nánar