Helgin var viðburðarík hjá ísfirsku íþróttafólki.  Meistaraflokkur KFÍ tapaði fyrir Þór Þorlákshöfn í hörku leik sem fór í framlenginu og endaði 84-86. Á laugardaginn spilaði svo unglingaflokkur við firnasterkt lið Keflavíkur og endaði leikurinn með sigri Keflavíkur 72-101. Þessa má geta að í liði Keflavíkur voru tveir landsliðsmenn og annar þeirra Ísfirðingurinn Sigurður Þorsteinsson.

Sundfélagði Vestri fór til Reykjavíkur um helgina og keppti á Gullmóti  KR.  Þetta er stórt mót og voru um 600 keppendur.  Vestrakrakkarnir stóðu sig örugglega vel og voru félagi sínu til mikils sóma eins og þeim er von og vísa.

Strákarnir í 3.flokki Harðar í handbolta fengu Þróttara í heimsókn og náðu Harðarmenn ekki að sýna sitt rétta andlit og biðu lægri hlut 22-33. Þeir eru í stöðugri framför og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Skíðafélagið hélt félagsmót í stórsvigi við góðar aðstæður. Keppt var í flokkum 9-10 ára, 11-12, 13-14 ára og 15 ára og eldri.  Úrslit mótsins má sjá á heimasíðu SFÍ www.snjor.is .

Hjá BÍ hélt Luka Kostic fyrirlestur og voru margir áhugasamir knattspyrnumenn framtíðarinnar mættir og höfðu gagn og gaman af.

Félög er hvött til þess að senda framkvæmdarstjóra HSV upplýsingar um viðburði til þess að setja inn á viðburðadagatal heimasíðu HSV.

Nánar
 

Íþróttasálfræði

fjarnámskeið frá Endurmenntun Háskóla Íslands

23. og 24. febrúar

Námskeið haldið í samvinnu við geðsvið Landspítalans og ætlað íþróttafræðingum, sálfræðingum, þjálfurum og öðrum áhugasömum.

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu grunnatriði íþróttasálfræðinnar. Fjallað verður um kenningar í íþróttasálfræði og hvernig þeir sem starfa með íþróttamönnum geta nýtt þær kenningar til að bæta árangur íþróttamanna.

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

Hugarþjálfun og skynmyndir. Hvað er hugarþjálfun og skynmyndir? Er hægt að bæta árangur í íþróttum með hugarþjálfun og skynmyndum? Hvernig fer hugarþjálfun fram?

Einbeiting í íþróttum. Hvað er einbeiting og hvernig skiptir hún máli í íþróttum? Hvað truflar einbeitingu? Hvernig er hægt að auka einbeitingu?

Markmiðssetning íþróttamanna. Hversu miklu máli skiptir markmiðssetning? Skiptir máli hvernig markmið eru sett?

Sjálfstraust. Hvað er sjálfstraust? Hvaða áhrif hefur sjálfstraust í íþróttum? Er hægt að hafa of mikið sjálfstraust í íþróttum? Hvernig er hægt að auka sjálfstraust hjá íþróttamönnum?

Kvíði og spennustig. Hvað er kvíði og spenna? Hvaða áhrif hefur kvíði og spenna á frammistöðu? Hvað hefur áhrif á spennustig íþróttamanna? Hvernig er hægt að stjórna spennustigi?

Endurgjöf. Hvað er endurgjöf? Hvaða máli skiptir endurgjöf í íþróttum? Skiptir máli hvernig endurgjöfin er? Endurgjöf og árangur.

Samstaða í íþróttum. Hvað er samstaða? Hvaða máli skiptir samstaða í íþróttum? Hvernig er hægt að auka samstöðu í hópum?

  • Tími: Mánudagur 23. febrúar kl. 13:00-16:00 og þriðjudagur 24. febrúar kl. 9:00-12:00.
  • Staður: Fæðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12, Ísafirði. Kennt í gegnum fjarfundabúnað.
  • Kennari: Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur.
  • Verð: 15.500 kr.

Skráning á námskeiðið er á vef Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða www.frmst.is eða í síma 456 5025. Mikilvægt að skrá sig tímanlega.

 

Nánar

Strákarnir í KFÍ gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Hamarsmenn 82-73. Lið Hamars var taplaust fyrir þennan leik. KFÍ hefur nú unnið fjóra leiki í röð og eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina í 1.deild. Frekari umfjöllun um leikinn er á www.kfi.is . Þar er einnig fréttir af yngri flokkum félagsins sem voru að spila um helgina.

Nánar

Bikarmótið í alpagreinum sem fram fór um helgina gekk eins og í sögu og voru aðstæður frábærar, gott skíðafæri og sól skein í heiði. Tveir Ísfirðingar nældu sér í silfur í svigi í 15-16 ára flokki, þau Elín Jónsdóttir og Ólafur Njáll Jakobsson. Ísfirðingar fengu samtals þrenn silfurverðlaun á þessu móti, þar sem Anna María Guðjónsdóttir varð önnur í stórsviginu á laugardaginn í 17-19 ára flokki. Öll úrslit mótsins má sjá á heimasíðu skíðafélagsins www.snjor.is undir liðnum "skrár".

Nánar

Meistaraflokkur KFÍ fær topplið Hamars í heimsókn á föstudagskvöld. Hamarsmenn hafa ekki tapað leik í vetur og vonum við að það breytist á morgun. Leikurinn er kl.19.15 stundvíslega og eru allir hvattir til að mæta. 
KFÍ hefur unnið síðustu þrjá leiki og hefur liðið góða möguleika á því að komast í úrslitakeppnina.

Frekari upplýsingar á heimasíðu KFÍ www.kfi.is

Nánar