Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ undirrituðu í dag samning um átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs á landsvísu. Samningurinn markar tímamót fyrir íþróttir á Íslandi en á grundvelli hans mun íþróttahreyfingin koma á fót átta svæðisskrifstofum með stuðningi stjórnvalda. Svæðisskrifstofurnar munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins og ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.
 
Stofnun starfsstöðvanna átta fellur vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins í íþróttamálum til ársins 2030. Horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi, ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
 
Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er jafnframt að ÍSÍ og UMFÍ skilgreini hlutverk íþróttahéraða að nýju og meti starfsemi þeirra með það að leiðarljósi að efla hana enn frekar.  Til viðbótar er horft til samlegðaráhrifa við verkefni ríkis og sveitarfélaga, s.s. samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, skólaþjónustu og æskulýðsstarf.
 
Tillögur um stofnun starfsstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ í haust. Auk þess að setja á laggirnar átta svæðisskrifstofur munu ÍSÍ og UMFÍ samkvæmt samningnum koma á Hvatasjóði, þar sem íþróttahéruð/félög/deildir geta sótt um stuðning við verkefni er miða t.d. að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna.
 
Mennta- og barnamálaráðuneytið mun veita 400 m.kr. til verkefnisins á næstu tveimur árum. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 m.kr. af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðisskrifstofa og 70 m.kr. til Hvatasjóðs. Á hverri svæðisskrifstofu verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni. 

 

Nánar

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 verður útnefndur á veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði þann 13. janúar 2024 kl. 14:00. Viðburðurinn er öllum opinn.

Eftirtalin eru tilnefnd í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Ásgeir Óli Kristjánsson, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefndur af Golfklúbbi Ísafjarðar
Elmar Atli Garðarsson, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af bæjarbúa
Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísfirðinga, tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga
Gustav Kjeldsen, knattspyrnudeild Vestra, tilnefndur af knattspyrnudeild Vestra
Leifur Bremnes, Skotís, tilnefndur af Skotís
Sigrún Betanía Kristjánsdóttir, knattspyrnudeild Vestra, tilnefnd af knattspyrnudeild Vestra
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, körfuknattleiksdeild Vestra, tilnefndur af körfuknattleiksdeild Vestra
Sólveig Pálsdóttir, Golfklúbbi Ísafjarðar, tilnefnd af Golfklúbbi Ísafjarðar
Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir, blakdeild Vestra, tilnefnd af blakdeild Vestra

 

 

Nánar

Héraðssamband Vestfirðinga auglýsir eftir umsóknum í Styrktarsjóð þjálfara. Samkvæmt reglugerð sjóðsins er honum ætlað að auka þekkingu og færni þjálfara og með því móti auka gæði þjálfunar og efla íþróttastarf í sveitarfélaginu. Sjóðsstjórn er heimilt að úthluta styrkjum til aðila utan vébanda HSV, enda muni viðkomandi verkefni verða íþróttalífi og félögum í Ísafjarðarbæ og Súðavík til hagsbóta

Umsóknarfrestur er til og með 10. desember

Í umsókn þarf að koma fram helstu upplýsingar um þjálfarann og/eða verkefnið sem sótt er um styrk fyrir. Umsóknum skal skilað á netfangið hsv@hsv.is eða til HSV, Suðurgötu 12, 400 Ísafjörður

Reglugerð sjóðsins má finna á heimasíðu HSV; https://hsv.is/um_hsv/styrktarsjodur_thjalfara_hsv/

Frekari upplýsingar gefur framkvæmdastjóri HSV, hsv@hsv.is eða í síma 865-7161

 

Nánar
Um liðna helgina fór fram 53. Sambandsþing UMFÍ á Hótel Geysi í Haukadal. HSV átti þar þrjá fulltrúa. Þetta var tímamóta þing þar sem að komin er niðurstaða í áratuga langt samtal um skiptingu lottótekna og hlutverk íþróttahéraða, Tímamótatillaga var samþykkt samhljóða, tallagan felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ fari 15% til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri.
 
Samkvæmt tillögunni verður komið á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.
Vinnuhópar UMFÍ og ÍSÍ sem unnu að tillögunni horfa til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar.
 
Breytingarnar munu taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, meðal annars með vísan til farsældarlaga.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu þingsins og flutti þar ávarp. Þar sagði hann búið að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði sem tillagan kveður á um og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni.
 
Það er ánægjulegt að íþróttahreyfingin gengur nú í takt, samstaðan á þinginu var mikil og gleðin og ungmennafélagsandinn sveif yfir vötnum.
 
Fulltrúar HSV þakka þingfulltrúum, stjórn og starfsfólki UMFÍ fyrir gott og skemmtilegt þing.
Nánar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Afrekssjóð HSV. Samkvæmt reglugerð Afrekssjóðs HSV er markmið sjóðsins að styrkja unga og efnilega íþróttamenn með því að gera eins árs samning við viðkomandi (8. grein). En einnig er heimilt að úthluta einstaka styrkjum til þeirra íþróttamanna sem ekki falla undir skilyrði til samnings (9. grein).

 

3. grein

Eingöngu iðkendur aðildarfélaga HSV, sem stunda íþróttir sem viðurkenndar eru af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), geta sótt um styrk úr sjóðnum.

 

8. grein

Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja unga og efnilega íþróttamenn sem líklegir eru til að verða afreksmenn í framtíðinni. Sjóðurinn skal ná því markmiði með því að gera eins árs samning við viðkomandi.

 

9. grein

Heimilt er að úthluta úr Afrekssjóðnum einu sinni á ári til þeirra íþróttamanna sem ekki falla undir skilyrði til langtímasamnings.

 

Reglur afrekssjóðs HSV

 

Umsóknarferlið er eins hvort sem sótt er um að gera samning eða fá einstaka styrki, umsækjandi velur í ferlinu hvoru hann sækist eftir. Umsækjandi sem óskar eftir samningi en fær ekki mun sjálfkrafa færast yfir í hóp þeirra sem sækja um einstaka styrki.

 

Umsóknarferlið fer fram í gengum heimasíðu HSV líkt og verið hefur. Slóðin inn á ferlið er hér: SÆKJA UM

 

Umsóknarfrestur er til og með 11.desember 2023

Nánar