Á ársþingi HSV sem haldið var í gær, 7. maí voru þremur einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV.  Tvö gullmerki og eitt silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar

Eftirfarandi fengu viðurkenningar.

Gullmerki HSV:

Þórunn Pálsdóttir

Tilnefnd til gullmerkis HSV af Skíðafélagi Ísfirðinga

Þórunn hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Víst er að enginn var svikinn um ást og umhyggju í þeim ferðum. Einnig var Þórunn gjaldkeri í stjórn SFÍ um nokkurra ára skeið.

Þórunn er einn af þessum sterku póstum sem Skíðafélagið byggir starf sitt á. Þó hún eigi ekki lengur iðkendur í félaginu er hún alltaf tilbúin að leggja fram vinnu hvort sem það er bakstur, aðstoð við þjálfun, vinna við mót eða hvað annað sem félagið tekur sér fyrir hendur. Nú síðasta áratuginn og ríflega það hefur Þórunn haft umsjón með Skíðaskálanum í Tungudal. Þar eru mörg handtökin sem þarf að vinna: Sjá um bókanir, skipta um á rúmum, þrífa, sinna þvotti, kaupa inn og passa upp á viðhald svo nokkuð sé nefnt. Þetta hefur Þórunn unnið í sjálfboðavinnu og þar með bæði sparað félaginu útgjöld og aflað því tekna.

Skíðafélag Ísfirðinga þakkar af heilum hug Þórunni fyrir hennar framlag, það er ómetanlegt að eiga svona liðsmann.

 

Jóhanna Oddsdóttir hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.

Allir sem starfa að félagsmálum vita að án öflugra sjálfboðaliða getur ekkert félag lifað til lengdar. Og það finnast varla öflugri sjálfboðaliðar en Jóhanna Oddsdóttir. Hvænar sem þörf er á dugandi fólki til vinnu á Seljalandsdalnum er Jóhanna mætt fyrst allra, gjarnan með hann Nonna sinn með sér, og vinnur eins og sleggja uns verkefið hefur verið klárað. Gildir þá einu hvort um er að ræða uppsetningu á snjógirðingum, vinnu við mótahald, tiltekt í skálanum eða eitthvað annað. Alltaf má stóla á Jóhönnu. Hún hefur líka um árabilt stýrt af röggsemi einu stærsta kaffihlaðborði á Íslandi, Fossavatnskaffinu og setið í ritnefnd Skíðablaðsins í ótal mörg. Jóhanna hefur setið í stjórn skíðafélagsins og sinnt formennsku í mörg ár og skilið eftir sig gott verk. Ef skíðafélagið þarf á fólki að halda þá mætir Jóhanna. Ekki má heldur gleyma hlutverki hennar sem skíðamamma, því hún lagði Skíðafélagi Ísfirðinga til einn besta skíðagöngumann landsins undanfarin ár, Albert Jónsson.

Það er ótrúlega dýrmætt fyrir Skíðafélagið, og fyrir íþróttahreyfinguna, að eiga bandamenn eins og Jóhönnu Oddsdóttur. Jóhanna hlaut silfurmerki HSV árið 2018 og nú er komið að því að stíga skrefið til fulls og veita henni sjálft gullmerkið.

 

Silfurmerki HSV:

 

Leifur Bremnes hefur unnið gífurlega mikið sjálfboðaliðastarf hjá skotíþróttafélagi Ísafjarðar.

Núna þegar við erum að byggja aðstöðu , hefur Leifur notað allan sinn frítíma í að vinna við aðstöðuna. Svona menn eru ótrúlega dýrmætir fyrir félögin.

Nánar

Í samræmi við 7. gr laga HSV er hér með boðað til 24. Héraðsþings HSV, þriðjudaginn 7. maí kl. 17:00. Þingið verður haldið á fjórðu hæðinni í Stjórnsýsluhúsinu.

Dagskrá og upplýsingar um tillögur sem fara fyrir þingið verður gefið út tveimur vikur fyrir þing

Tillögur sem óskað er eftir að teknar verði fyrir á Héraðsþingi, skulu hafa borist stjórn HSV fyrir 1. maí 2024.

Einnig er óskað eftir fólki til að gefa kost á sér í aðalstjórn HSV. Áhugasamir geta haft samand með tölvupósti í hsv@hsv.is fyrir frekari upplýsingar.

Frekari upplýsingar varðandi héraðsþing HSV má finna í lögum HSV sem nálgast má á heimasíðu HSV, hsv.is.

Nánar

Knattspyrnumaðurinn Elmar Atli Garðarson var útnefndur íþróttamaður ársins 2023 í Ísafjarðarbæ í athöfn sem fram fór á laugardaginn á veitingastaðnum Logni.

Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra, sem tryggði sér nýlega sæti í efstu deild karla í knattspyrnu á Íslandi. Hann hóf að leika með meistaraflokki sumarið 2014, þá 17 ára gamall. Elmar hefur borið fyrirliðabandið hjá Vestra frá árinu 2017 og sinnt því hlutverki með miklum sóma, með þrotlausri vinnu innan sem utan vallar. Elmar er mikil fyrirmynd, sérstaklega fyrir ungt knattspyrnufólk sem hann gefur sér ávallt tíma fyrir.

Elmar leikur stöðu varnarmanns hjá Vestra. Hann á að baki 233 KSÍ leiki og í þeim hefur hann skorað fjögur mörk. Hann er metnaðarfullur og leggur allt í sölurnar til að félagið hans nái árangri.

Elmar er fæddur og uppalin í Súðavík þar sem hann byrjaði ungur að æfa knattspyrnu. Hann hefur sýnt aðdáunarverða tryggð við félagið sitt sem og samfélagið með því að leika allan sinn knattspyrnuferil fyrir vestan. Tryggð sem nú hefur skilað knattspyrnuliði Vestra í röð bestu liða á Íslandi.

Við athöfnina voru efnilegustu íþróttamenn ársins 2023 einnig útnefnd en það voru þau Maria Kozak í bogfimideild Skotís og Sverrir Bjarki Svavarsson í blakdeild Vestra.


Sverrir Bjarki Svavarsson og Maria Kozak voru útnefnd efnilegustu íþróttamenn ársins 2023. Yngri systir Sverris tók við verðlaununum fyrir hans hönd.

Þá fengu ungmenni sem hafa verið valin í úrtakshóp fyrir landslið hjá sínum sérsamböndum viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum.


Ungmennin sem fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum og fulltrúar þeirra sem komust ekki á athöfnina.

Síðast en ekki síst fékk Sigmundur Fríðar Þórðarson hvatningaverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar, fyrir óeigingjarnt og ötult starf í þágu íþrótta, sérstaklega á Þingeyri.


Sigmundur ásamt Örnu Láru bæjarstjóra.


Íþróttafólkið sem var tilnefnt í kjöru um íþróttamann ársins


Íþróttafólkið sem var tilnefnt í kjöri um efnilegasta íþróttamann ársins

 
Nánar

Úthlutað hefur verið styrkjum úr Afrekssjóði HSV. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir íþróttafólkið okkar hérna heima í héraði og erlendis.

Alls bárust þrettán umsóknir.

Stjórn Afrekssjóðsins hefur tekið ákvörðun um að gera samning við fimm einstaklinga um mánaðarlega styrki fyrir árið 2024. Helsta markmið með samningunum er að auka utanumhald og stefnumörkun á afrekssviði og jafnframt er sett aukin áhersla á markmið og markvissan undirbúning þeirra iðkenda sem stefna að því að komast í fremstu röð.

Þeir íþróttamenn sem gerður er samningur við eiga það öll sameiginlegt að vera með skýr og góð markmið um að styrkja sig og eflast í sinni íþróttagrein. 

Einnig voru veittir styrkir til átta íþróttamanna samkvæmt því ferli sem áður hefur verið úthlutað eftir hjá Afrekssjóðnum.

Þeir íþróttamenn sem gerðir verða árssamningar við eru:

Dagur Benediktsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Ástmar Helgi Kristinsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Grétar Smári Samúelsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Guðrún Helga Sigurðardóttir, Lyftingardeild Vestra

Hákon Ari Heimisson, Blakdeild Vestra

 

Þeir íþróttamenn sem hlutu stakan styrk eru:

Sveinbjörn Örri Heimisson, Skíðafélag Ísfirðinga

Eyþór Freyr Árnason, Skíðafélag Ísfirðinga

Ísar Logi Ágústsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Pétur Þór Jónsson, Handknattleiksdeild Harðar

Dagný Emma Kristinsdóttir, Körfuknattleiksdeild Vestra

Elmar Breki Baldursson, Körfuknattleiksdeild Vestra

Kacper Tyszkiewicz, Blakdeild Vestra

Pétur Örn Sigurðsson, Blakdeild Vestra

 

HSV óskar þessum afreksíþróttamönnum til hamingju

Nánar

Nánar