- 16.08.17
- Salome Elín Ingólfsdóttir
Æfingar í Íþróttaskóla HSV að hefjast
Æfingar í Íþróttaskóla HSV hefjast fimmtudaginn 24.ágúst. Stundaskrá íþróttaskólans hefur verið birt hér á síðunni undir "Íþróttaskóli" og vonandi finna börnin í 1.-4.bekk eitthvað við sitt hæfi. Við hvetjum foreldra til að ská börn sín hér á heimasíðunni undir liðnum "Skráning iðkenda". Við í HSV hlökkum til samstarfsins í vetur og vonumst til að sjá sem flest börn á þessum aldri á æfngum hjá okkur eins og undanfarna vetur. Þið ættuð einnig að finna okkur á facebook þar sem ýmsar upplýsingar eru settar inn, Íþróttaskóli HSV.
Nánar
- 14.08.17
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Fyrirlestrar Vöndu Sigurgeirsdóttur 16. og 17. ágúst
Vanda Sigurgeirsdóttir
Framundan eru þrír fræðslufyrirlestrar fyrir iðkendur, þjálfara, foreldra og stjórnarmenn aðildarfélaga HSV. Það er Vanda Sigurgeirsdóttir sem heimsækir Ísafjörð og ræðir um ýmsa þætti sem styrkir börn og unglinga í þeirra íþróttastarfi og miðlar til aðila sem að því starfi koma.
Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Hún starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og er fyrrum landsliðskona í knattspyrnu. Hún hefur áratuga reynslu af að vinna með börnum og foreldrum. Forvarnir eineltis eru henni hjartans mál og hefur hún haldið fræðsluerindi fyrir börn og foreldra víða um land. Sérsvið hennar við Háskólann er einelti og tómstunda- og leiðtogafræði. Þá hefur hún einnig starfað sem knattspyrnuþjálfari í um 30 ár.
Dagskrá:
Miðvikudagur 16. ágúst
Kl. 17.00 - 19.00: þjálfarar og stjórnarmenn
Staðsetning: stofa 17 í Menntaskólanum á Ísafirði
Fyrirlestur fyrir þjálfara og stjórnarfólk um samskipti við iðkendur, um börn í félagslegum vanda og hvernig þjálfarar geta haldið börnum í íþróttum, um að mismuna ekki börnum, um félagslega þáttinn og fleira.
Kl. 20.00 - 21.30: Foreldrar
Staðsetning: stofa 17 í Menntaskólanum á Ísafirði
Fyrirlestur fyrir foreldra íþróttakrakka um jákvæða og neikvæða leiðtoga - og hvernig
foreldrar geta hjálpað börnum sínum að verða jákvæðir leiðtogar.
Fimmtudagur 17. ágúst
Kl. 16.00 - 17.30: iðkendur fædd 2005 og fyrr.
Staðsetning stofa 17 í Menntaskólanum á Ísafirði
Fyrirlestur fyrir iðkendur um sálrænan undirbúning. Farið verður yfir nokkrar leiðir til að
kenna krökkunum að vinna í andlega þættinum. Einnig rætt um leiðtoga.
Kl. 18.00-19.30: Knattspyrnuþjálfarar
Staðsetning: Torfnes
Fræðsla fyrir knattspyrnuþjálfara sérstaklegta miðuð við þjálfun stelpna.
Nánar
- 10.07.17
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Heiðursmerki HSV 2017
Á myndinni eru frá vinstri: Katla Vigdís Vernharðsdóttir sem veitti móttöku starfsmerkis fyrir hönd móður sinnar Svövu Ránar Valgeirsdóttur, Grétar Eiríksson, Hanna Mjöll Ólafsdóttir, Stefanía Ásmundsdóttir, Torfi Einarsson og Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður HSV
Guðni Guðnason sem hlaut starfsmerki UMFÍ
Á ársþingi HSV sem haldið var 23. maí síðastliðinn afhenti Guðný Stefanía STefánsdóttir fimm einstaklingum starfsmerki HSV. Veitt voru fjögur silfurmerki og eitt gullmerki. Einnig afhenti Hrönn Jónsdóttir ritari UMFÍ einum einstaklingi starfsmerki UMFÍ.
Þeir sem hlutu silfurmerki HSV voru:
Grétar Eiríksson Herði
Grétar kom til starfa sem handboltaþjálfari hjá Herði haustið 2014 og er því að ljúka sínum þriðja vetri hér á Ísafirði. Allt frá fyrstu stund Sýndi hann að hann er sérlega hæfur þjálfari, félagi og fyrirmynd. Hann nær mjög vel til allra sinna iðkenda og hvar sem hann hefur komið við er farið um hann lofsamlegum orðum. Grétar hefur ávalt verið tilbúin til að aðstoða við íþróttaskóla HSV og sá að miklu leiti um kennslu þar í afleysingum veturinn 2015-2016. Það er eftirsjá af Grétari sem nú heldur til annara starfa en við vonum að með tíð og tíma átti hann sig á að á Ísafirði á hann heima.
Hanna Mjöll Ólafsdóttir Vestra
Hanna hefur um árabil starfað í grasrót íþróttahreyfingarinnar. Hún hefur verið tengiliður í fótboltanum upp flesta flokka, bæði stúlkna og drengja. Hún hefur einnig um langa hríð starfað af krafti fyrir Skíðafélag Ísfirðinga. Ófáar keppnisferðir hefur hún skipulagt og staðið vaktina við fjáraflanir af flestum toga. Það er ómetanlegt að hafa liðsmann eins og Hönnu sem gengur í verk og framkvæmir og ekki bara einu sinni eða tvisvar heldur oft og margsinnis.
Stefanía Ásmundsdóttir Vestra/HSV
Stefanía er borin og barnfæddur Grindvíkingur og stundaði körfubolta að kappi með sínu félagi öll sín uppvaxtarár. Stefanía kom til liðs við KFÍ haustið 2000 og var lykilmaður í liðinu. Eftir að ferli hennar lauk hefur hún varið öflug sem þjálfari og einnig hefur hún unnið mikið fyrir félagið sem foreldri. Stefanía var formaður undirbúningsnefndar fyrir Landsmót 50+ sem fram fór á Ísafirði síðastliðið sumar. Þar vann hún mikið og öflugt starf sem skilaði okkur góðu og vel skipulögðu móti. Einnig situr Stefanía í stjórn Afrekssjóðs HSV. Stefanía hefur sýnt það í verki að hún hefur verið íþróttahreyfingunni hér á norðanverðum Vestfjörðum mikill styrkur.
Svava Rán Valgeirsdóttir Stefni
Svava er formaður Stefnis og stýrir þar starfi sem er skemmtileg blanda af gamla ungmennafélagsandanum og nútíma afreksstarfi. Svava hefur lagt mikla áherslu á fjölbreytt starf fyrir bæði börn og fullorðna á Suðureyri þar sem lögð er áhersla á samveru og gleði. Hún hefur einnig sinnt ýmsum samfélagsmálum á Suðureyri í gegn um sitt íþróttastarf. Svava hefur verið í mjög góðu samstarfi við íþróttaskóla HSV.
Torfa Einarssyni var veitt gullmerki HSV:
Erfitt er að skipa Torfa í lið eða félag. Hann hefur komið víða við bæði sem iðkandi, keppandi, þjálfari, stjórnarmaður og foreldri. Sjálfur stundaði hann júdó á yngri árum og hélt úti æfingum í júdó um tíma. Torfi hefur einnig verið ötull félagsmaður hjá Sæfara og á að baki margar vinnustundir þar við uppbyggingu aðstöðu og ekki síður í kringum barna- og unglingastarf. Torfi hefur um hríð verið í aðalstjórn Harðar og sem formaður frá árinu 2014. Hann lét af formennsku í vetur en mun áfram þjálfa glímuiðkendur félagsins líkt og verið hefur undanfarin ár. Torfi er hversmanns hugljúfi og lipur í samstarfi. HSV vill hér með þakka Torfa hans framlag til íþróttastarfs á svæðinu og hlakkar til að njóta starfskrafta hans áfram um ókomna tíð.
Starfsmerki UMFÍ hlaut Guðni Guðnason:
Guðni Ólafur Guðnason er uppalinn KR-ingur og spilaði lengi körfuknattleik fyrir félagið sem á hans tíma vann bæði Íslands- og bikarmeistaratitla. Guðni hefur einnig leikið fyrir íslenska landsliðið í körfuknattleik. Hann flutti til Ísafjarðar ásamt fjölskyldu sinni árið 1996 og varð strax öflugur liðsmaður KFÍ. Þar hefur hann sinnt fjölmörgum hlutverkum, var leikmaður fyrstu ár sín hér vestra, sinnti þjálfun bæði barna og meistaraflokks auk þess að sitja í stjórn KFÍ. Guðni hefur einnig setið í stjórn HSV og var um tíma varaformaður sambansins. Guðni var einn þeirra sem stóð að vinnunni bak við stofnun Vestra og er nú gjaldkeri aðalstjórnar Vestra. Á þessari upptalningu sést að vinnuframlag Guðna til íþróttastarfs er mikið og fjölbreytt.
Allir hafa þessir einstaklingar lagt mikið af störfum fyrir íþróttahreyfinguna og starfið hjá aðildarfélögum HSV. Stjórn og starfsfólk þakkar samstarfið og hlakkar til að vinna áfram með þessu góða fólki að vexti og viðgangi íþrótta á svæðinu.
Nánar
- 3.07.17
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Landsmót DGI í Danmörku
Mótssetning fór fram í grenjandi rigningu.
Frá slitum landsmótsins.
Framkvæmdastjóri HSV hefur undanfarna daga verið á landsmóti DGI í Álaborg í Danmörku. DGI eru samtök sem starfa líkt og UMFÍ á Íslandi. Ferðin var farin á vegum UMFÍ og þátttakendur voru framkvæmdastjórar og stjórnarmenn félaga og héraðssambanda innan UMFÍ ásamt stjórn og starfsmönnum UMFÍ. Tilgangur ferðarinnar var annarsvegar að efla ungmennafélagsandannog auka tengsl meðal starfsmanna og stjórnarmanna vítt og breytt um landið og hinsvegar að upplifa landsmót Dana og fá hugmyndir til að breyta og bæta landsmót UMFÍ. Óhætt er að segja að þeim. Arkmiðum hafi verið náð og allir þátttakendur koma heim reynslunni ríkari með margar hugmyndir í farteskinu.
Landsmótið í Álaborg "Landsstævnen" þótti ákaflega vel heppnuð þrátt fyrir að nokkuð hafi rignt í fyrstu en bleytan gleymdist fljótt er sólin tók að skína seinni hluta móts. Skipulag mótsins miðaðis við að fá sem flesta til að taka þátt og var ekki mikil áhersla á keppni og verðlaun. Einnig voru á dagskrá ýmsar nýjar greinar líkt og götufótbolta og fljótandi badminton. Boðið var upp á prufutíma í fjölmörgum greinum og var mikil þátttaka í þeim. Áberandi var afslappað andrúmsloft, einföld og fjölbreytt afþreying og gleði hjá öllum aldursflokkum. Gaman verður að sjá hvort hægt verði að fanga þetta andrúmsloft á komandi landsmótum UMFÍ.
Nánar
Lokið er fyrsta leikjanámskeiði HSV þetta sumarið. Mikil gleði ríkti að venju þó svo að veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta. Nú er viku frí en framundan eru tvö námskeið eftirfarandi vikur:
- 19.-23. júní
- 26.-30. júní
Námskeiðin er virka daga frá kl.9-12 og er mæting við Íþróttahúsið á Torfnesi. Krakkarnir geta fengið vistun frá kl.8:30 án skipulagðrar dagskrár.
Nesti verður tekið um miðjan morgun og koma allir með hollt og gott nesti að heiman.
Verð fyrir leikjanámskeiðið er eftirfarandi:
• 1 vika kostar 5000 kr.
• 2 vikur kosta 9000 kr.
Mjög mikilvægt er að foreldrar og foráðamenn skrái börnin á námskeiðin fyrirfram. Þannig er hægt að tryggja að nægilegur fjöldi leiðbeinenda séu til staðar og skipulag henti.
Skráning fer fram í gegnum heimasíðuna www.hsv.is Skrá þarf sérstaklega í hvaða viku barnið verður á leikjanámskeiðinu og er það sett í athugasemdir.
Skráningarleiðbeiningar
1. Fara inn á heimasíðu HSV, www.hsv.is
2. Fara í skráning iðkenda vinstra megin á síðunni
3. Til að geta skráð sig inn þarf fyrst að haka í samþykkja skilmála og nota kennitölu foreldris
4. Þegar búið er að skrá sig inn koma upp nöfn fjölskyldumeðlima. Ef einungis ykkar nafn kemur upp þarf að fara í „nýr iðkandi“ og velja það barn sem þið viljið skrá.
5. Veljið „Námskeið/flokkar í boði“ aftast í línu barnsins (ath að það gæti þurft að skrolla til hliðar á síðunni til að sjá þetta)
6. Þá kemur upp það sem er í boði og til að skrá á leikjanámskeið HSV skal fara í „skráning“ aftast í línunni (ath að það gæti þurft að skrolla til hliðar á síðunni til að sjá þetta)
7. Þá kemur að því að velja greiðslufyrirkomulag og klára skáningu (muna að haka við samþykkja skilmála) og hér setjið þið í athugasemdir hvaða vikur barnið verður á leikjanámskeiði.
Nánari upplýsingar veitir Salome Elín Ingólfsdóttir í gegnum netfangið ithrottaskoli@hsv.is
Nánar