Á komandi helgi spilar Vestri tvo blakleiki í íþróttahúsinu á Torfnesi. Á laugardag kl. 13 er það meistaraflokkur karla sem tekur á móti HKb og á sunnudag kl. 14 spilar meistarflokkur kvenna við HKb.

Karlalið Vestra hefur gengið mjög vel í vetur og er sem stendur í efsta sæti 1. deildar með 33 stig eftir 12 leiki en HKb er í þriðja sæti með 23 stig en á tvo leiki til góða. Það stefnir því í skemmtilegan leik á laugardaginn hjá Vestramönnum.

Vestrakonur eru í þriðja sæti í 1. deild en HKb eru í öðru sæti með einu stigi meira en Vestri sem á einn leik til góða. Leikur sunnudagsins hjá kvennaliði Vestra verður því eflaust spennandi og barist um hvert stig. 

Hvetjum við fólk til að mæta en blak er mjög skemmtileg íþrótt og oft mikil spenna í leiknum.

Nánar

Orkubú Vestfjarðar veitir HSV styrk úr samfélagssjóði sínum vegna fræðsluátaks fyrir iðkendur aðildarfélaga HSV um næringu. 

Fyrir börn og unglinga er nær ómögulegt að átta sig á hvað er rétt og hvað er rangt þegar kemur að næringu. Til að styðja okkar ungmenni til bættrar næringar og heilsu hyggst HSV vera með fræðsluverkefni fyrir iðkendur sína þar sem næringarfræðingur fer yfir hver er besta næring fyrir unglinga og ungt fólk. Einnig verður kynnt hvað ber að varast og sérstaklega farið yfir mest áberandi fæðubótarefni og orkudrykki. Að lokum verður sérstaklega farið í næringu íþróttafólks og kynnt hvernig best er að haga undirbúningi fyrir erfiðar æfingar og keppni og hvað er best fyrir endurheimt miðað við aldur.

Þessi styrkur Orkubúsins gerir HSV kleift að setja þetta átak af stað. Héraðssamband Vestfirðinga þakkar Orkubúi Vestfjarðar kærlega fyrir stuðninginn og áhuga á starfi sambandsins.

Nánar

Laugardaginn 23. febrúar kl 15 fer fram bikarleikur í blaki í íþróttahúsinu á Torfnesi. Karlalið Vestra tekur á móti HK sem er nú í 2. sæti úrvalsdeildar en Vestri er í efsta sæti 1. deildar. Það má því búast við öflugum og skemmtilegum leik.

Nánar
Albert Jónsson og Dagur Benediktsson
Albert Jónsson og Dagur Benediktsson

Ísfirðingarnir Albert Jónsson og Dagur Benediktsson hófu keppni á Heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Seefeld í dag. Þeir kepptu í undankeppni fyrir lengri göngurnar og voru gengnir 10 km með hefðbundinni aðferð.

Strákunum okkar gekk mjög vel og komust þeir báðir áfram úr undankeppninni og munu því keppa í lengri göngum mótsins ásamt sprettgöngu sem fer fram á morgun. Til að komast áfram úr undankepninni þurfti ná fyrstu 10 sætunum og urðu úrslit þau að Albert varð í þriðja sæti og Dagur í sjötta. Á morgun keppa strákarnir í sprettgöngu ásamt þeim Kristrúnu Guðnadóttur, Isak Stianson Pedersen og Ragnari Gamalíel Sigurgeirssyni.

Meðfylgjandi mynd tók Heimir Gestur Hansson fréttaritari HSV á HM.

Nánar
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV, Þórður Gunnar Hafþórsson Vestra, Auður Líf Benediktsdóttir Vestra og Hjalti Karlsson formaður Vestra.
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV, Þórður Gunnar Hafþórsson Vestra, Auður Líf Benediktsdóttir Vestra og Hjalti Karlsson formaður Vestra.
1 af 2

Síðasta laugardag var skrifað undir styrktarsamninga Afrekssjóðs HSV við tvo efnilega íþróttamenn úr Vestra. Samningarnir fela í sér að Afrekssjóður greiðir mánaðarlega styrki til íþróttafólksins árið 2019. Í þetta skiptið voru gerðir samningar við Auðir Líf Benediktsdóttur frá blakdeild Vestra og Þórð Gunnar Hafþórsson hjá knattspyrnudeild Vestra. Undir samingana skrifuðu fyrir hönd HSV Ásgerður Þorleifsdóttir formaður og fyrir hönd Vestra Hjalti Karlsson formaður aðalstjórnar Vestra.

Auður Líf er 19 ára og ein efnilegasta blakkona landsins og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum í blaki. Hún spilar með meistarflokki kvenna hjá Vestra í 1. deild. Árið 2018 keppti hún fyrir Íslands hönd á EM U19 sem haldið var í Úkraínu. Hún spilaði með B-landsliðinu í blaki á Ítalíu og aftur með U19 liðinu í Englandi. Markmið Auðar á árinu er að komast í A-landsliðið í blaki.

Þórður Gunnar er mjög efnilegum knattspyrnumaður sem þrátt fyrir að vera einungis 17 ára hefur spilað með meistarflokki Vestra síðustu tvö keppnistímabil. Siðustu tvö ár hefur hann verið valinn efnilegasti leikmaður Vestra og var útnenfdur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Þórður á að baki 8 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með U18 síðasta sumar. Á síðasta ári fór hann til reynslu hjá enska knattspyrnuliðinu Barnsley í vikutíma.

 

Nánar