Um síðastliðna helgi fóru starfsmenn HSV, Dagný og Heiðar Birnir ásamt u.þ.b. 40 manna hópi á vegum UMFÍ og aðildarfélugum til Noregs þar sem íþróttahéraðið Viken var heimsótt.
Viken er fjölmennasta íþróttahéraðið í Noregi. Innan Viken búa um 1,2 milljónir íbúa og myndar það kraga utan um Oslóborg.
 
Íslenski hópurinn fékk kynningu á héraðssambandinu sjálfu og starfsemi þess, einkum hvað varðar börn. Meðal annars var farið yfir áhrif norskra laga um réttindi barna í íþróttum og hvernig þeim er framfylgt.
Einnig fengum við fræðslu um hvernig íþróttahéraðið nálgast jaðarhópa í íþróttastarfi, það var mjög fræðandi og munum við geta nýtt okkur margt af því sem kom fram í okkar starfi.
 
Ferðin heppnaðist mjög vel í alla staði.
Svona ferð styrkir ekki síður tengslanet innan íþróttahreyfingarinnar.
Nánar

Tekið af vef Vestri.is

Viljayfirlýsing um byggingu íþróttahúss

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar fimmtudaginn 18. mars var samþykkt tillaga bæjarráðs varðandi viljayfirlýsingu um samstarf Ísafjarðarbæjar og Íþróttafélagsins Vestra vegna byggingu íþróttahúss á Torfnesi á Ísafirði og bæjarstjóra jafnframt falið að vinna málið áfram með íþróttafélaginu. Með þessari samþykkt er stigið mikilvægt skref í þá átt að leita leiða til að byggja umrætt mannvirki og leysa úr brýnni þörf á bættri aðstöðu á Torfnesi.

Undanfarin ár hefur verið gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins en ekkert orðið úr framkvæmdum þrátt fyrir að verkið hafið verið boðið út í tvígang. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Íþróttafélagið Vestri lýsir yfir vilja til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á byggingu fjölnota íþróttahúss en í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun. Á móti lýsir Ísafjarðarbær yfir vilja til að taka húsnæðið á leigu og greiða ákveðna upphæð á ári í tiltekinn árafjölda sem nánar verður kveðið á um í samningi þegar forsendur liggja fyrir. Að leigutíma loknum eignast Ísafjarðarbæ húsnæðið að fullu. Er miðað við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna.

Næstu vikur verða nýttar til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu með það að markmiði að allar forsendur liggi fyrir ekki seinna en í maí. Í kjölfarið verði gengið frá samningi um verkefnið að því gefnu að báðir aðilar telji það framkvæmanlegt út frá fyrirliggjandi forsendum.

Ástand beggja knattspyrnuvallanna á Torfnesi er bágborið og standast þeir engan veginn þá kröfur sem gerðar eru slíkra mannvirkja í dag. Ekki hefur verð skipt um gervigras á minni vellinum frá því að hann var tekinn í notkun fyrir tveimur áratugum og grasvöllurinn er vart nothæfur þar sem undirlagið er ónýtt. Er hann eingöngu notaður sem keppnisvöllur meistaraflokka yfir hásumarið og varla það því heimalið hafa þurft að spila heimaleiki á útivelli þegar veðuraðstæður eru óhagstæðar. Meistarflokkur karla hefur síðustu ár æft á knattspyrnuvellinum í Bolungarvík en börn og ungmenni æfa á gervigrasvellinum. Þegar líður á vetur færast æfingar inn í íþróttahúsin á Torfnesi og í Bolungarvík sem eru fullnýtt fyrir.

Íþróttahúsið á Torfnesi er löngu sprungið og annar engan veginn eftirspurn íþróttafélaga um tíma fyrir æfingar, kappleiki og íþróttamót. Yfir veturinn eru helgarnar undirlagðar vegna leikja og móta sem þýðir að æfingar falla niður hjá fjölmörgum flokkum. Þannig féllu niður hátt á annað hundrað æfingar á haustönn 2021. Nýtt hús með aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun mun minnka álagið á íþróttahúsinu á Torfnesi og skapa meira svigrúm fyrir aðrar íþróttagreinar. Fyrst og síðast er þó verið að bæta aðstöðu hundruða barna og ungmenna sem stunda íþróttir í sveitarfélaginu. Er mikilvægt að þau hafi sömu tækifæri og standi jafnfætis jafnöldrum sínum í öðrum sveitarfélögum þegar kemur að framboði á öflugu íþróttastarfi og aðstöðu til íþróttaiðkana barna og ungmenna. 

Stjórn HSV sendi erindi til sviðstjóra Skóla og tómstundaviðs í október 2021 þar sem ítrekuð var brýn þörf á byggingu fjölnota knattspyrnuhúss á Ísafirði. Í kjölfarið fóru framkvæmdastjóri og formaður á fund bæjarráðs þann 25. október sl. ásamt fulltrúum Íþróttafélagsins Vestra þar sem þörfin var ítrekuð og þar kom jafnframt  fram að  fullkomin samstaða væri varðandi þá brýnu þörf.

HSV fagnar því að málið sé komið í þann farveg að farið sé að sjá fyrir endann á áralangri baráttu og styður viljayfirlýsingu Íþróttafélagsins Vestra og Ísafjarðarbæjar um uppbygginguna.

Nánar

Æfingar fyrir svigskíði og snjóbretti fyrir börn í 1.-4. bekk hefjast í vikunni.

Einnig verða sérstakar æfingar fyrir byrjendur.

Allir iðkendur þurfa að vera skráðir í íþróttaskóla HSV og fer skráning fram hér https://hsv.felog.is  

ATH skrá þarf í þá grein eða greinar sem viðkomandi iðkandi ætlar að stunda(sviskíði, snjóbretti, gönguskíði og fleira) og einnig í íþróttaskóla HSV fyrir viðkomandi aldur.  Ef það eru einhverjar spurningar varðandi þetta hafið endilega samband á ithrottaskoli@hsv.is 

 

Æfingar á svigskíðum eru eftirfarandi:

Miðvikudagur kl. 17.00-18.30

Laugardagur kl. 10.30-12.00

 

Sérstakt byrjendanámskeið verður um nk helgi 04.-06. febrúar og fer það fram kl. 10.00-12.00 laugardag og sunnudag.  

Við viljum fá alla byrjendur á þetta námskeið og biðjum við foreldra um láta vita á netfangið sfialpa@gmail.com ef börnin eru byrjendur og einnig ef vanta þarf búnað. En hægt verður að fá lánaðan búnað endurgjaldslaust í tvö skipti hjá skíðaleigunni í Tungudal.

Hér er Facebook síða alpagreina fyrir 1.-4. bekk  

https://www.facebook.com/groups/433060506797920

 

Snjóbrettaæfingar eru eftirfarandi:

Þriðjudagar kl. 17.00-18.30 fyrir þau sem geta farið sjálf í allar lyftur.

Æfingar fyrir byrjendur verða á miðvikudögum kl. 17.00-18.00

Þegar nýr einstaklingur byrjar sem kann ekki að fara í lyftu þá verður foreldri eða annar fullorðinn að fylgja barninu á æfingar þangað til lyftufærnin kemur. Langbest er ef þið farið sjálf með börnin utan æfingartíma til að læra á lyftuna. Það eru engin töfrabrögð í þessu, bara reyna aftur og aftur þangað til það hefst.

Hér er Facebook síðan fyrir snjóbretti 1.-4. bekk  https://www.facebook.com/groups/1008812359258253

 

 

Nánar
Albert Jónsson
Albert Jónsson
1 af 2

Úthlutað hefur verið styrkjum úr Afrekssjóði HSV. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir íþróttafólkið okkar hérna heima í héraði og erlendis.

Alls bárust 7 umsóknir frá þremur félögum. Stjórn Afrekssjóðsins ákvað að gera styrktar samninga til eins árs við tvo einstaklinga um mánaðarlega styrki. Helsta markmið með samningunum er að auka utanumhald og stefnumörkun á afrekssviði og jafnframt er sett aukin áhersla á markmið og markvissan undirbúning þeirra iðkenda sem stefna að því að komast í fremstu röð. Að þessu sinni eru þeir tveir einstaklingar sem fá árs samning við sjóðinn báðir að keppast um sæti á Ólympíuleikum sem fara fram í Peking núna í febrúar.

Einnig voru veittir styrkir til 5 iðkenda samkvæmt því ferli sem áður hefur verið úthlutað eftir hjá Afrekssjóðnum.

Þeir íþróttamenn sem gerðir verða árssamningar við eru:

Albert Jónsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Dagur Benediktsson, Skíðafélag Ísfirðinga

 

Þeir íþróttamenn sem hluta stakan styrk eru:

Ástmar Helgi Kristinsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Guðmundur Páll Einarsson, Knattspyrnudeild Vestra

Grétar Smári Samúelsson, Skíðafélag Ísfirðinga

Sveinbjörn Örri Heimisson, Skíðafélag Ísfirðinga

Pétur Þór Jónsson, Handknattleiksdeild Harðar

 

HSV óskar þessum afreksíþróttamönnum til hamingju

Nánar
1 af 2

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2021 var útnefndur í dag, föstudaginn 14. janúar. Að þessu sinni var athöfnin með allra minnsta sniði til að fylgja samkomutakmörkunum.

 

Hafsteinn Már leikmaður í blakdeild Vestra var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2021, Hafsteinn Már byrjaði að æfa blak á Ísafirði 9 ára gamall eða fljótlega eftir að krakkablakið hóf að ryðja sér til rúms hér fyrir vestan. Hann var lengi vel einn af þeim lágvaxnari í sínum æfingahóp en æfði grimmt og gaf því öðrum iðkendum ekkert eftir á vellinum. Eftir því sem árin liðu, fór Hafsteinn Már að banka uppá í karlaliðinu. Fyrstu skiptin sem hann var á leikskýrslu, var hann ekki nema 13 ára. Hafsteinn Már er fjölhæfur leikmaður og hefur td. spilað allar stöður á vellinum. Hann var valinn í draumalið úrvalsdeildarinnar veturinn 2020-2021, var valinn efnilegasti leikmaður í úrvalsdeildinni af þjálfurum deildarinnar tímabilið 2020-2021 og er í æfingahóp A-landsliðs karla. Hafsteinn Már er fyrirliði blakdeildar Vestra, er einn af öflugustu leikmönnum í úrvalsdeildinni og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

 

Efnilegasti íþróttamaður ársins 2021 er Sudario Eiður Carneiro úr handknattleiksdeild Harðar. Sudario er ungur og efnilegur leikmaður sem hefur náð miklum framförum sl. tvö ár og er mikilvægur hlekkur í toppliði Harðar í 1. deildinni. Í rökstuðningi segir meðal annars: „Sudario er frábær leikmaður og liðsfélagi, sem gefur sig ávallt allan fram innan sem utan vallar. Hann er vel liðin af liðsfélögum og drífur þá áfram með krafti sínum. Einnig er hann iðinn við félagsstörf í þágu Harðar og er alltaf reiðubúinn til að aðstoða þegar kemur að hinum ýmsu verkefnum. Sudario, sem er aðeins 17 ára, hefur allt til að bera til að verða handboltamaður í hæsta gæðaflokki og er hann einn af þeim efnilegustu sem sést hefur í vestfirskum handbolta.“

 

Þá hlaut Fossavatnsgangan hvatningarverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar, en árlega veitir nefndin þessi verðlaun fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

 

Eftirfarandi tilnefningar bárust frá aðildarfélögum HSV.

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2021
Anton Helgi Guðjónsson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Hafsteinn Már Sigurðsson – Blakdeild Vestra
Samúel Orri Stefánsson – Hjóladeild Vestra
Allir iðkendur – Íþróttafélagið Ívar
Albert Jónsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Bára Einarsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðar
Nicolaj Madsen – Knattspyrnudeild Vestra
Hilmir Hallgrímsson – Körfuknattleiksdeild Vestra

Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2021
Jón Gunnar Shiransson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Svanfríður Guðný Þorleifsdóttir – Blakdeild Vestra
Sudario Eiður Carneiro – Handknattleiksdeild Harðar
Embla Kleópatra Atladóttir – Hjólreiðadeild Vestra
Sveinbjörn Orri Heimisson – Skíðafélag Ísfirðinga
Guðmundur Arnar Svavarsson – Knattspyrnudeild Vestra
Sara Emily Newman – Körfuknattleiksdeild Vestra

Nánar